Brasilíska geimferðastofnunin skráði 17.326 elda í Amazon í október. Það eru tvöfalt fleiri en í sama mánuði á síðasta ári. Á gervihnattarmyndum sáust tæplega 100.000 eldar á fyrstu tíu mánuðum ársins, fleiri en allt árið í fyrra.
Sérfræðingar og ýmis samtök segja að ástæðan fyrir þessu sé sú stefna sem Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, rekur. Hann er fullur efasemda um loftslagsbreytingarnar og styður aukið skógarhögg og landbúnað á þessum svæðum.
Oft eru eldar kveiktir til að ryðja land sem á að taka undir landbúnað, sérstaklega undir nautgriparækt. Það hélt ekki aftur af öllum að bann var lagt við slíku í 120 daga í júlí.
Amazonskógurinn er eitt fjölbreyttasta vistkerfi heimsins. Pantanal, sem er sunnar og nær upp að Paragvæ og Bólivíu, býr yfir einum mesta fjölda dýra og planta á einu svæði. Þar voru tæplega 3.000 eldar skráðir í október og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði síðan skráning hófst 1998. Talið er að um 23% votlendisins hafi brunnið á þessu ári en í heildina hafa 21.115 eldar verið skráðir þar það sem af er ári eða tvöfalt fleiri en allt síðasta ár.