Í janúar á síðasta ári var hann framseldur til Marokkó en yfirvöld þar höfðu lengi haft hug á að fá hann framseldan vegna gruns um aðild hans að hryðjuverkum þar í landi. Í tengslum við framsalið lýsti Mansour yfir áhyggjum um líf sitt. Inger Støjberg, þáverandi ráðherra útlendingamála, sagði þá að dönsk stjórnvöld hefðu fengið tryggingu frá stjórnvöldum í Marokkó um að öryggi Mansour yrði tryggt.
En nú hefur Mansour verið dæmdur til dauða í Marokkó. Þetta staðfesti útlendingamálaráðuneytið í tölvupósti til danskra fjölmiðla um helgina en áður höfðu borist fréttir af fréttum fjölmiðla í Marokkó um dóminn. Í þeim kemur fram að hann hafi verið sakfelldur fyrir hryðjuverk í Casablanca 2003 sem kostaði 45 manns lífið.
Í tilkynningu útlendingamálaráðuneytisins kemur fram að dómnum hafi verið áfrýjað og að dönsk yfirvöld eigi ekki von á að dómnum verði fullnægt en frá 1993 hefur dauðadómum ekki verið framfylgt þar í landi.
Mansour er sextugur. Hann kom til Danmerkur frá Marokkó 1984 og fékk danskan ríkisborgararétt 1988.
Málið er vandræðalegt fyrir dönsk stjórnvöld sem höfðu fengið loforð frá stjórnvöldum í Marokkó um að Mansour yrði ekki dæmdur til dauða. Dómurinn þýðir að Danir brutu gegn ákvæðum mannréttindasáttmála sem leggja blátt bann við framsali til ríkja þar sem viðkomandi á dauðadóm yfir höfði sér, skiptir þá engu að Mansour hafði verið sviptur dönskum ríkisborgararétti áður. Inger Støjberg vildi ekki mæta í viðtal hjá fjölmiðlum í gær en sagði í skilaboðum sem hún sendi Danska ríkisútvarpinu: „Ég hef ekki saknað hans“.