Jonathan Reiner, sérfræðingur CNN í heilbrigðismálum, segist óttast að algjör sprenging verði í COVID-19 smitum í kjölfar þakkargjörðarhátíðarinnar og að dauðsföllum muni fjölga mjög fram að jólum.
Smitsjúkdómastofnunin, CDC, varaði fólk við ferðalögum í tengslum við hátíðina til að forðast smit. En margir fylgdu þessum ráðum ekki. Samtök samgöngufyrirtækja áætla að um 50 milljónir hafi heimsótt ættingja sína í tengslum við hátíðina. 2,5 milljónir ferðuðust með flugvélum. Þetta er um helmingi færri flugfarþegar en fyrir ári síðan en miklu fleiri en hafa farið um flugvelli landsins síðan heimsfaraldurinn skall á. Á myndum frá flugvöllum víða um landið má sjá að margt var um manninn og ekki hægt að stunda félagsforðun.
„Þegar milljónir Bandaríkjamanna hunsa tilmæli um að ferðast ekki getum við átt von á sprengingu í fjölda smita á næstu vikum,“ sagði Reiner og bætti við: „Núna sjáum við mikinn fjölda fólks fara um alla flugvelli landsins og taka veiruna með sér.“
Hann sagðist vera mjög áhyggjufullur og óttast að þakkargjörðarhátíðin verði stærsti einstaki viðburðurinn í Bandaríkjunum hvað varðar smit. „Þetta er hugsanlega móðir allra ofursmitaatburða,“ sagði hann.
Hann og fleiri sérfræðingar í heilbrigðismálum óttast að smitum, innlögnum á sjúkrahús og ekki síst dauðsföllum af völdum COVID-19 muni fjölga gríðarlega í kringum jólin. Þetta þýðir í raun og veru að þegar fjölskyldurnar setjast saman við hátíðarborðið og borða kalkún er verið að gera út af við veika og gamla ættingja því veiran berst þá til þeirra.
Heilbrigðisyfirvöld hafa áætlað áhrif þakkargjörðarhátíðarinnar og óttast að mikil aukning geti orðið á dauðsföllum strax í annarri viku desember.
Víða hafa sóttvarnaráðstafanir verið hertar vegna hátíðarinnar. Má þar nefna að í Pennsylvania á fólk nú að nota andlitsgrímur þegar það umgengst annað fólk, þetta gildir einnig inni á heimilum. Í Oregon mega mest sex hittast. Í New Jersey er bannað að syngja. Í Ohio má ekki dansa í brúðkaupum. Sektir eða fangelsi liggur við brotum á þessum reglum.
Margir Repúblikanar eru ósáttir við þetta og segja þetta ósanngjarnt inngrip í einkalíf fólks. „Þetta er orðið hlægilegt. Við megum ekki gleyma að við búum í Bandaríkjunum og að stjórnarskráin gildir jafnvel þótt hætta steðji að,“ saðgi Jim Jordan, þingmaður og einn mesti stuðningsmaður Donald Trump forseta, í samtali við Fox News.