Angela Merkel, kanslari, sagði í gærkvöldi að þessar nýju reglur gildi til 20. desember og mjög líklega verði þær framlengdar fram í janúar. Þetta sagði hún eftir fund með leiðtogum allra sextán sambandsríkjanna. „Smithlutfallið er allt of hátt,“ sagði Merkel á fréttamannafundi.
Hún kynnti einnig tilslakanir á reglunum um jól og áramót þannig að fólk geti fagnað hátíðinni með aðeins fleira fólki. Hún lagði áherslu á að þetta gildi aðeins í jólafríinu.
Frá og með 1. desember mega ekki fleiri en fimm koma saman á heimilum og annars staðar, á þessu eru þó ákveðnar undantekningar, til dæmis hvað varðar vinnustaði. Þetta eru enn þrengri takmarkanir en voru settar í byrjun nóvember. Þá var svokallað „lockdown light“ tekið upp til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar en smitum hafði þá fjölgað mikið í Þýskalandi. Þetta þýðir að barir og veitingastaðir eru lokaðir en verslanir og skólar eru opnir.
Í gær var tilkynnt að 18.633 ný smit hefðu greinst síðasta sólarhringinn. Það eru rúmlega 5.000 færri smit en á föstudaginn, sem var metdagur hvað varðar fjölda smita. 410 létust af völdum COVID-19 á síðasta sólarhring. Alls hafa rúmlega 14.700 manns látist af völdum COVID-19 í Þýskalandi.