Jótlandspósturinn skýrir frá þessu. „Við erum sannfærð um að þeir geri þetta vegna peninga. Í skilaboðum, sem við fengum, er ekkert sem bendir til að ástæðan sé önnur en peningar,“ sagði Lars Vesterløkke, framkvæmdastjóri Ritzau, í samtali við Jótlandspóstinn.
Fréttastofan hefur neitað að greiða lausnargjaldið. Ekki hefur verið skýrt frá hversu mikið þrjótarnir kröfðu fréttastofuna um. Ritzau reiknar með að vera komin með nokkuð eðlilega starfsemi á nýjan leik í dag. Tölvuþrjótunum tókst ekki að læsa öllum gögnum og kerfum hennar og brugðust starfsmenn snarlega við þegar þeir urðu varir við aðgerðir tölvuþrjótanna og náðu að takmarka það magn gagna sem þrjótarnir náðu yfirráðum yfir.
Jótlandspósturinn hefur eftir Jens Monrad, sérfræðingi hjá bandaríska tölvuöryggisfyrirtækinu Fireey, að líklega séu það atvinnumenn á þessu sviði sem standa á bak við árásina á Ritzau. Þetta sé vel skipulagt og útfært og greinilega fagmenn sem standa að baki.