Konan, sem var 22 ára, hafði aðeins verið gift í sex mánuði þegar eiginmaður hennar og tengdafjölskyldu lömdu hana til bana af því að hún hafði ekki getað eignast barn. Xinhua ríkisfréttastofan skýrði frá þessu.
Í frétt Xinhua segir að konan hafi látist þann 31. janúar á síðasta ári. Fyrir dómi kom fram að eiginmaður hennar og tengdafjölskylda hennar hafi farið illa með hana, gengið í skrokk á henni. Neitað henni um mat og látið hana dvelja utanhúss í vetrarhörkum. Allt hafi þetta verið gert til að refsa henni.
Í janúar var fólkið sakfellt fyrir misþyrmingar en það er það ákæruatriði sem yfirleitt er notast við þegar um ættingja eða fólk úr sömu fjölskyldu og fórnarlambið er að ræða. Hámarksrefsingin við slíku broti er sjö ára fangelsi. Eiginmaðurinn og tengdafjölskyldan voru síðan dæmd í tveggja til þriggja ára fangelsi. Dómurinn ákvað að milda refsinguna þar sem „að allir sakborningarnir skýrðu satt og rétt frá málsatvikum, játuðu sök og iðruðust“ að því er sagði í umfjöllun ríkisdagblaðsins People‘s Daily.
CNN segir að dómurinn hafi vakið upp mikla úlfúð um allt land og heitar umræður um það samfélagslega vandamál sem ofbeldi gegn konum er. Dómstólnum var fyrirskipað að taka málið aftur til meðferðar í apríl en það varð ekki til að lægja öldurnar og í síðustu viku fór dómstóllinn þá óvenjulegu leið að senda frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
Á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo hefur myllumerki málsins verið skoðað 290 milljón sinnum og margir hafa tjáð sig um það og lýst yfir hneykslun sinni og vonbrigðum.
„Þessi ofbeldismaður hlaut vægan dóm því hann klæddist skikkju hjónabandsins,“ skrifaði einn notandi. Aðrir hafa lýst yfir reiði sinni yfir dómskerfinu og samfélagsuppbyggingunni sem haldi áfram að bregðast konum. Svo virðist sem dómskerfið afsaki ofbeldi karla gagnvart konum. Aðrir bentu á misræmið í refsingum þar sem þungar refsingar liggi við smávægilegum brotum. Var þar sem dæmi nefnt að fyrir fimm árum var unglingur dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir fyrir að hafa selt eftirlíkingu af skammbyssu. Dómurinn var síðan mildaður í sjö ára fangelsi.
„Að selja leikfangabyssur og skrifa stuttar klámbækur varðar 10 ára fangelsi. Er mannslíf svo lítils virði?“ spurði einn notandi Weibo.