Bóluefnið var þróað í samvinnu við vísindamenn við Oxfordháskóla og hafa miklar vonir verið bundnar við það. AstraZeneca tilkynnti um niðurstöður prófana með bóluefnið á mánudaginn. Þá kom fram að bóluefnið sýni 70% til 90% virkni.
En þrátt fyrir að margir af færustu sérfræðingum heims í gerð bóluefna hafi unnið að þróun bóluefnisins þá voru það mistök sem urðu til þess að í ljós kom að bóluefnið getur náð allt að 90% virkni. Mistökin voru að þegar verið var að bólusetja hluta sjálfboðaliða í tilraunum með efnið þá var þeim aðeins gefinn hálfur skammtur af bóluefninu í staðinn fyrir heilan skammt. Ef fólki er síðan gefinn heill skammtur mánuði síðar næst allt að 90% virkni í stað 70%.
„Það var algjör slembilukka að við notuðum hálfa skammta,“ sagði Pangalos að sögn The Mirror.
Ætlunin var að breskir sjálfboðaliðar myndu fá tvo heila skammta en það olli kom vísindamönnunum á óvart að sumir sjálfboðaliðanna fengu mildari aukaverkanir á borð við höfuðverk, þreytu og beinverki í handleggjum en búist var við að sögn Pangalos. „Svo við skoðuðum þetta aftur . . . og komumst að því að þeir höfðu aðeins fengið hálfan skammt.“
Samt sem áður var ákveðið að halda áfram með tilraunir á þessum hópi og gefa honum heilan skammt í síðari bólusetningunni. Niðurstaðan var að bóluefnið náði þá 90% virkni í þessum hópi en hjá stærri hóp, sem fékk tvo heila skammta, var virknin 62%. Meðalvirknin var 70% hjá öllum hópum.
„Það er kjarni málsins að við slysuðumst til að gefa hálfan skammt og síðan heilan skammt. Já, þetta voru mistök,“ sagði hann og bætti við að frekari rannsókna væri þörf til að skýra af hverju minni skammtur veiti meiri vörn.