„Ein vika með algjörlega takmarkalausri samveru mun þýða að í janúar verðum við að greiða það dýru verði með mikilli aukningu dauðsfalla og álags á gjörgæsludeildirnar. Við höfum ekki efni á því,“ sagði Conte að sögn Bild.
Ítalir fóru illa út úr fyrstu bylgju faraldursins og ástandið er ekki betra nú í annarri bylgju hans. Í síðustu viku náði fjöldi dauðsfalla sama stigi og var fyrri hluta apríl. Í heildina hafa rúmlega 51.000 manns látist af völdum COVID-19 á Ítalíu.
Álagið á heilbrigðiskerfi landsins hefur verið gríðarlegt síðan heimsfaraldurinn skall á síðasta vetur. Við þessu hefur verið brugðist með því að tvöfalda fjölda gjörgæslurýma sem eru nú orðin 9.931 í landinu. Einnig hefur öndunarvélum verið bætt við en hins vegar hefur aðeins 625 svæfingalæknum og öðrum með sérþekkingu á því sviði verið bætt við starfsmannafjöldann að sögn The Guardian.