Ítalía var eitt þeirra vestrænu landa sem varð verst úti í fyrstu bylgju faraldursins síðasta vetur og vor. Frá upphafi hafa 1,45 milljónir Ítala greinst með veiruna og 51.306 hafa látist af völdum COVID-19. Þetta er næst mesti fjöldi látinna í Evrópu, aðeins í Bretlandi hafa fleiri látist af völdum veirunnar.
Af þeim 34.577 sem liggja á sjúkrahúsum eru 3.816 á gjörgæsludeildum.
Þegar önnur bylgja faraldursins fór að sækja í sig veðrið í byrjun nóvember voru um 1.000 manns lagðir inn á sjúkrahús á hverjum sólarhring og á gjörgæsludeildum fjölgaði sjúklingum um 100 á sólarhring. Í Langbarðalandi í norðurhluta landsins er ástandið verst þessa dagana. Í gær greindust 4.886 smit þar. Næst verst er ástandið í Lazio í miðhluta landsins en Róm er meðal annars í héraðinu. Þar greindust 2.509 smit í gær.