Tíst Trump komu skömmu eftir að Emily Murphy, forstjóri General Services Administration (GSA), gaf út formlegt samþykki fyrir upphafi valdaskiptanna. Í tístum sínum bað Trump Murphy um að „gera það sem þarf“ til að hægt sé að undirbúa valdaskiptin og sagðist hafa fyrirskipað ríkisstjórn sinni að gera það sama.
Það er GSA sem lýsir yfir sigurvegara í forsetakosningunum. Það gerist yfirleitt ekki fyrr en annar frambjóðandinn hefur viðurkennt ósigur sinn en það hefur Trump ekki enn gert. Tíst hans í gærkvöldi eru líklega það næsta sem hann hefur komist því að viðurkenna ósigur eftir að hafa haldið því fram í þrjár vikur að víðtækt kosningasvindl hafi átt sér stað.
Í bréfi sem Murphy sendi Joe Biden skrifaði hún að hann virðist hafa sigrað í kosningunum og þar með opni hún fyrir aðgang hans að opinberu fjármagni og opinberum starfsmönnum. Teymi Biden mun einnig geta hafið samhæfingu valdaskiptanna í samvinnu við sitjandi ríkisstjórn og stjórnvöld.
Murphy skrifaði einnig að þessi ákvörðun sé nauðsynleg til að takast á við þær áskoranir sem þjóðin stendur frammi fyrir, bæði hvað varðar að ná stjórn á heimsfaraldri kórónuveirunnar og til að koma hjólum efnahagslífsins aftur á rétt spor.
Þrýstingur á Murphy, um að gefa grænt ljós á undirbúning valdaskiptanna, hefur aukist mikið að undanförnu en hún þráaðist lengi við að gefa Biden grænt ljós á að hefja undirbúning valdaskiptanna. Sífellt fleiri Repúblikanar, þjóðaröryggissérfræðingar og forkólfar úr atvinnulífinu hafa hvatt til að undirbúningur valdaskiptanna gæti hafist.
Í gær voru úrslit kosninganna í Michigan staðfestar opinberlega og þar með er ljóst að Biden sigraði með 155.000 atkvæða mun í ríkinu. Framboð Trump hafði krafist endurtalningar í einu kjördæma ríkisins og að staðfestingu úrslitanna yrði frestað í tvær vikur. Kjörstjórn ríkisins samþykkti úrslitin 3-0 í atkvæðagreiðslu. Fjórir sitja í kjörstjórninni, tveir Repúblikanar og tveir Demókratar. Annar Repúblikaninn sat hjá við atkvæðagreiðsluna en hinn kaus með tillögu um að úrslitin yrðu samþykkt. Biden hefur því tryggt sér 16 kjörmenn ríkisins.