Samkvæmt fréttum breskra fjölmiðla þá tóku 11.363 þátt í prófunum á bóluefninu.
„Niðurstaðan sýnir að við erum með virkt bóluefni sem mun bjarga mörgum mannslífum. Það er spennandi að við höfum komist að því að bóluefnisskammtar okkar hafa áhrif í um 90% tilfella og ef þessi skammtastærð er notuð er hægt að bólusetja fleiri miðað við fyrirhugaða afhendingu á bóluefninu,“ sagði Andrew Pollard, prófessor og rannsóknastjóri hjá Oxford Vaccine Trail, í fréttatilkynningu frá AstraZeneca.
Áður hafa Pfizer, í samvinnu við BioNTech, og Moderna tilkynnt um bóluefni sem virka í allt að 95% tilfella.
Þrátt fyrir að bresk/sænska bóluefnið virki ekki eins vel hefur það þó þann stóra kost umfram hin tvö að það er hægt að geyma það í venjulegum ísskáp í að minnsta kosti sex mánuði. Bóluefni Pfizer þarf að geyma við 70 gráðu frost en bóluefni Moderna er hægt að geyma í ísskáp í allt að 30 daga.
AstraZeneca reiknar með að framleiða þrjá milljarða skammta af bóluefninu á næsta ári. BBC segir að bresk stjórnvöld hafi nú þegar pantað 100 milljónir skammta hjá fyrirtækinu en það nægir til að bólusetja 50 milljónir manna.