„Við höfum fengið nokkrar ábendingar frá Englandi, meðal annars frá ferðamönnum sem voru í Portúgal á þessum tíma,“ sagði Hans Christian Wolters, saksóknari, í samtali við The Mirror. Wolters stýrir rannsókn málsins.
„Við höfum fengið nokkar ljósmyndir sem eru hugsanlega áhugaverðar. Það eru nokkrar góðar ábendingar sem við erum að kanna,“ sagði hann. Lögreglan vonast til að þessar myndir geti varpað einhverju ljósi á málið. Wolters tók sérstaklega fram að það muni taka tíma að kanna myndirnar og þær upplýsingar sem þær veita hugsanlega. Það muni til dæmis seinka vinnunni að Bretar yfirgefa ESB um áramótin. Wolters benti á að innan ESB séu samhæfðar reglur um hvernig aðildarríkin vinna saman við rannsóknir mála og aðstoði hvert annað. Þegar Bretar yfirgefi ESB þurfi þýska lögreglan að senda formlegar beiðnir í hvert sinn sem hún óskar eftir upplýsingum. Þetta er að hans sögn ákveðið skrifræði sem muni hægja enn á gangi rannsóknarinnar.