Þetta sagði Moncef Slaoui, yfirmaður bólusetningamálefna, í viðtali við CNN í gær. Enn er beðið eftir samþykki bandaríska lyfjaeftirlitsins, FDA, á notkun þeirra bóluefna sem eru tilbúin til notkunar en þau eru frá Pfizer og Moderna. Pfizer sótti um neyðarleyfi til notkunar bóluefnisins hjá FDA á föstudaginn og er vonast til að umsóknin fái skjóta afgreiðslu.
Bóluefni Pfizer hefur ekki verið prófað á börnum yngri en 12 ára en Slaoui sagði að ætlunin sé að gera klínískar tilraunir með það á unglingum og börnum á næstu mánuðum. „Ég veit ekki hvort FDA muni samþykkja bóluefnið til notkunar fyrir þennan aldurshóp. Kannski verður aldurstakmarkið 18 ára,“ sagði hann.
Hann sagði að í klínísku tilraununum sé ætlunin að byrja á ungum unglingum og síðan verði yngri börn tekin inn í tilraunirnar og að lokum yngstu börnin. Hann sagðist eiga von á að, ef FDA samþykkir notkun bóluefnisins, að hægt verði að byrja að bólusetja börn allt niður í 12 mánaða aldur í maí.