Washington Post skýrir frá þessu. Þessi örlitla bjartsýni hjá WHO byggir á að í síðustu viku greindust 1,8 milljónir smita í álfunni en voru 2 milljónir vikuna áður. Í nokkrum af þeim löndum sem hafa orðið verst úti í faraldrinum má sjá mikla fækkun tilfella, þar á meðal í Frakklandi, Belgíu og Tékklandi. Í Þýskalandi er smitkúrvan einnig farin að sveigjast niður á við.
En þrátt fyrir þetta er álagið á heilbrigðiskerfið mikið og andlátum af völdum COVID-19 hefur fjölgað um alla álfuna. „Það eru góðar fréttir og ekki svo góðar fréttir,“ sagði Hans Kluge, svæðisstjóri WHO í Evrópu, á fréttamannafundi á föstudaginn. Hann sagði að fækkun smita væri smá vísbending um þróun faraldursins. Hann sagði að þetta mætti þakka sóttvarnaaðgerðum sem gripið hefur verið til víða um álfuna á síðustu vikum. Hann varaði ríki álfunnar við að slaka of snemma á aðgerðum sínum og sagði að sá litli árangur, sem náðst hefur, muni þá hverfa hratt eins og gerðist í sumar.