Ákveðið hefur verið að 25. nóvember verði 40% af flugstöðvarbyggingunum lokað eða 24 brottfararhliðum. Þessi lokun á að gilda út næsta ár. Check-in skýrir frá þessu. Fram kemur að hægt sé að endurskoða þetta með tveggja mánaða fyrirvara ef flugfarþegum fjölgar. Í heildina eru 78 brottfararhlið á vellinum.
Með þessum lokunum er hægt að spara rafmagn, þrif, viðhald og eftirlit að sögn Christian Poulsen, rekstrarstjóra flugvallarins. Hann sagði hverja krónu skipta máli núna þegar flugvöllurinn hefur nær engar tekjur og verði að taka milljónir að láni í hverjum mánuði til að geta haldið áfram starfsemi.
Í ágúst voru 650 stöður á flugvellinum lagðar niður en þær voru 2.600. Á fyrstu níu mánuðum ársins fóru 6,7 milljónir farþega um völlinn en það svarar til um 71% samdráttar frá því á sama tíma 2019.