Í hylkinu eru nokkur grömm af jarðvegi af loftsteininum Ryugu. Vonast er til að rannsóknir á jarðveginum geti varpað ljósi á uppruna lífsins hér á jörðinni.
„Loftsteinar eru eftirlifandi byggingaefni frá þeim tíma er sólkerfið myndaðist fyrir 4,6 milljörðum ára og þess vegna eru þeir mjög mikilvægir fyrir vísindin,“ hefur The Guardian eftir Martin Lee, prófessor við Glasgow háskóla. „Ef þú vilt vita úr hverju plánetan var upphaflega búin til þá verður þú að rannsaka loftsteina,“ sagði hann einnig.
Japanska geimfarinu Hayabusa 2 var skotið á loft fyrir sex árum og sent áleiðis til Ryugu loftsteinsins sem fer einn hring um sólina á 16 mánuðum. Í 18 mánuði fylgdist geimfarið með loftsteininum en lét síðan til skara skríða og fór nálægt honum og náði nokkrum grömmum eða jafnvel bara nokkrum ögnum af jarðvegi af honum. Síðan hófst ferðin aftur til jarðar. Vísindamenn bíða nú spenntir eftir sýninu til að geta hafist handa við rannsóknir á því.