Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á föstudaginn. Í henni skoðuðu vísindamennirnir 18 kosningafundi Trump frá júní og fram í september. Niðurstöðurnar sýna að smithlutfallið jókst oft mikið á þeim stöðum þar sem þessir fundir fóru fram en gerði það ekki í bæjum í nágrenninu þar sem Trump hélt ekki kosningafundi. Rétt er að hafa í huga að rannsóknin hefur ekki verið ritrýnd.
Vísindamennirnir notuðu ákveðna reikniaðferð til að reikna út smittíðnina tengda þessum 18 fundum. Tölurnar eru því ekki byggðar á einstökum smitum einstaklinga, sem sóttu kosningafundina, heldur á þróun smita í hverju ríki í allt að tíu vikur eftir þessa fundi.
The New York Times segir að yfirmenn heilbrigðismála í þessum ríkjum hafi lagt áherslu á að ekki sé hægt að rekja hvert einasta smit til þessara funda. Þess er vænst að Repúblikanar muni gagnrýna rannsóknina á þeim grunni að hún hafi ekki verið ritrýnd og því sé ekki hægt að treysta henni. Demókratar munu á hinn bóginn væntanlega segja að Trump hafi stefnt lífi fólks í hættu með kosningafundunum.
Með reikningsaðferðum sínum komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að 700 manns, hið minnsta, hefðu látist af völdum smita tengdum þessum kosningafundum. Þeir segja í niðurstöðum sínum að þau samfélög, þar sem Trump hefur haldið kosningafundi, hafi greitt það dýru verði.