Smitum hefur fjölgað mjög mikið að undanförnu og fleiri hafa látist en í nokkru öðru landi. BBC skýrir frá þessu og hefur eftir Dr Anthony Fauci, helsta smitsjúkdómasérfræðingi Bandaríkjanna, að landið stefni nú „í öfuga átt á mjög hættulegum tíma“ því nú séu meiri líkur að fólk safnist saman innanhúss þar sem nú kólnar í veðri.
Í New York borg hefur Bill de Blasio, borgarstjóri, fyrirskipað að skólum skuli lokað frá og með deginum í dag vegna fjölgunar smita. Borgin fór einna verst út úr fyrri bylgju faraldursins í vor og vilja yfirvöld ekki missa stjórn á faraldrinum. Ákvörðun um lokun skóla var tekin eftir að hlutfall jákvæðra sýna úr nemendum í opinberum skólum fór yfir 3%. Um 300.000 börn mega því ekki mæta í skólann á næstunni.
Í samtali við BBC varaði Fauci við aukningu smita og þar af leiðandi fleiri dauðsföllum. Hann hvatti fólk til að nota andlitsgrímur, halda góðri fjarlægð sín á milli og forðast fjölmenni. „Þetta virðist svo einfalt og við vitum að þetta virkar. En það er komin ákveðin COVID-þreyta – fólk er orðið þreytt á þessum hömlum,“ sagði hann og hvatti fólk til að þrauka aðeins lengur „því hjálpin er á leiðinni“ í formi bóluefna.