Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar ítölsku krabbameinsstofnunarinnar INT í Mílanó. Þetta þýðir þá að veiran, sem heitir SARS-CoV-2, barst mun fyrr frá Kína en áður var talið. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að faraldurinn hafi hafist í Wuhan í Kína í desember 2019.
Niðurstöður ítölsku rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Tumori Journal að sögn TV2. Rannsóknin byggist á rannsóknum á sýnum úr 959 sjálfboðaliðum sem tóku þátt í lungnakrabbameinsrannsókn frá september 2019 til mars 2020. Rannsóknin leiddi í ljós að 11% þátttakendanna höfðu þróað mótefni gegn kórónuveirunni fyrir febrúar.
Greining sem háskólinn í Siena gerði á sýnum leiddi í ljós að fjórir höfðu þróað mótefni gegn veirunni í október 2019 en það þýðir að viðkomandi smituðust í september að sögn Giovanni Apolone, sem vann að rannsókninni.
Í mars sögðu ítalskir vísindamenn að alvarlegum lungnabólgutilfellum og inflúensutilfellum hafi fjölgað mjög í Langbarðalandi á síðasta ársfjórðungi 2019 en það getur bent til að kórónuveiran hafi þá þegar verið komin á kreik þar. Langbarðaland var eitt þeirra svæða á Ítalíu sem fór verst út úr faraldrinum í vor.