Þessar ásakanir Trump og hans fólks eru liður í að reyna að grafa undan úrslitum forsetakosninganna sem Trump á greinilega mjög erfitt með að sætta sig við að hafa tapað. Trump og stuðningsfólk hans hafa veist að bréfatkvæðum, hugbúnaði þeim sem er notaður við talningu atkvæða og starfsfólki á kjörstöðum og talningarstöðum. Forsetinn hefur einnig haldið því fram að látið fólk hafi greitt atkvæði og hefur framboð hans birt nöfn margra þeirra sem eru sagðir vera látnir.
Þeirra á meðal er James Blalock frá Covington í Georgíu sem barðist í síðari heimsstyrjöldinni. Vandamálið við atkvæði hans? Jú, hann lést í janúar 2006. „Því miður er herra Blalock fórnarlamb kosningasvika,“ skrifaði kosningaframboð Trump á Twitter og birti mynd af dánartilkynningu Blalock. Tucker Carlson, hjá Fox News, tók undir þetta í beinni útsendingu og sakaði einhvern um að hafa greitt atkvæði í nafni Blalock. „Herra Blalock var bréfberi í 33 ár, þar til hann lést 2006. 14 árum síðar sendi hann samt póst. Hann kaus í kosningunum í síðustu viku,“ sagði Carlson.
Hjá sjónvarpsstöðinni 11AliveNews ákvað fólk að skoða þessar ásakanir betur og var haldið heim þangað sem James Blalock var síðast skráður til heimilis. Þar hittu sjónvarpsmenn fyrir konu sem skildi lítið í málinu.
„Hann kaus ekki, hann kaus ekki. Það var ég,“ sagði konan sem heitir Agnes Blalock og er ekkja James. Í samtali við DailyMail sagði Agnes, sem er 94 ára, að hún hafi sent atkvæðaseðil sinn í pósti. Í takt við gamlar hefðir notaði hún lögformlegt nafn sitt, Frú James Blalock, en það virðist hafa valdið miklum ruglingi hjá framboði Trump.
„Ég er ekki með netfang eða neitt því líkt. En þessu var bjargað af kjörstaðnum í Covington,“ sagði hún. Fréttamaður CNN setti sig í samband við kjörstaðinn sem staðfesti misskilninginn. „Ásakanir framboðs Trump passa ekki,“ skrifaði Holmes Lybrand, fréttamaður CNN á Twitter. Hann benti einnig á að framboð Trump hafi sagt að Linda Kesler, sem lést 2003, hafi greitt atkvæði í kosningunum en það passi heldur ekki. „Kjörstjórn í Jackson í Georgíu segir mér að Linda Kesler hafi ekki greitt atkvæði. Nafn hennar var tekið af kjörskrá 2003 þegar hún lést. Lynda Kesler greiddi hins vegar atkvæði á löglegan hátt,“ skrifaði hann einnig.
Two out of four 'dead' Georgia voters identified by the Trump Campaign found ALIVE & WELL by @11AliveNews. The president's campaign accused them of fraud. Elections officials say both voted legally. Mrs. James Blalock voted for Biden with her married name.https://t.co/n9dLA70jJB
— Brendan Keefe (@BrendanKeefe) November 13, 2020
Lybrand og CNN fóru í gengum lista kosningaframboðs Trump með nöfnum 14.000 látinna sem áttu að hafa greitt atkvæði í Michigan. 50 nöfn voru valin af handahófi og kannað hvort þau hefðu greitt atkvæði. Svo reyndist ekki vera. 37 af þessum 50 reyndust vera látnir og kusu ekki, sjö voru á lífi og kusu á löglegan hátt en 8 voru á lífi og kusu ekki.