Í samtali við Washington Post sagði Raffensperger að Graham, sem er formaður dómsmálanefndar öldungadeildarinnar, hafi spurt sig út í lög ríkisins varðandi undirskriftir á kjörseðlum og hvort pólitísk sjónarmið gætu hafa skipt máli í kjördæmum þar sem kjörstjórnir samþykktu fleiri atkvæði þar sem undirskriftir pössuðu ekki saman. Raffensperger sagði að því næst hafi Graham spurt hann hvort hann hefði völd til að láta henda öllum atkvæðum úr þessum kjördæmum.
Raffspenger sagðist hafa brugðið við þessa spurningu sem megi skilja sem svo að Graham hafi verið að stinga upp á að hann myndi finna leið til að henda löglega greiddum utankjörfundaratkvæðum. „Það leit svo sannarlega út fyrir að það væri það sem hann var að biðja um,“ sagði Raffspenger.
Graham staðfesti við blaðamenn að hann hefði átt þetta samtal við Raffensperger en að það væri „fáránlegt“ að halda að hann hafi verið að beita hann þrýstingi til að henda löglegum utankjörfundaratkvæðum. Hann hafi aðeins viljað fræðast betur um ferlið við að staðfesta undirskriftir því það sem gerist í Georgíu hafi „áhrif á alla þjóðina“.