Sky News skýrir frá þessu. Fram kemur að Trump hafi beðið um mat á slíkum árásum á fundi í síðustu viku þar sem Mike Pence, varaforseti, Mike Pompeo, utanríkisráðherra, og Christopher Miller, starfandi varnarmálaráðherra, voru meðal annarra viðstaddir.
Ónafngreindur embættismaður sagði í samtali við New York Times að Trump hafi verið ráðið frá að grípa til hernaðaraðgerða gegn Íran af ótta við að þær myndu verða kveikjan að enn víðtækari átökum. „Hann bað um mat á þessu. Þeir drógu upp sviðsmyndirnar og hann ákvað að lokum að grípa ekki til aðgerða,“ sagði heimildarmaðurinn.
Talsmenn Hvíta hússins hafa neitað að tjá sig um málið.
Daginn áður en Trump viðraði þessa hugmynd sína kom fram í nýrri skýrslu SÞ að Íran hafi flutt þróaðar skilvindur, sem eru notaðar til að auðga úran, úr verksmiðjuhúsnæði í neðanjarðaraðstöðu. Þetta er brot á kjarnorkusamningi landsins frá 2015. Íran á einnig 2,4 tonn af lítt auðguðu úrani en það er miklu meira ein heimilt er samkvæmt fyrrgreindum samningi en hann heimilar landinu að eiga 202,8 kg.