BBC segir að maðurinn hafi verið ginntur í gildru eftir að hafa verið inni á spjallsíðu fyrir samkynhneigða. Þar voru unglingarnir í sambandi við hann og sömdu um að hitta hann gegn því að hann fengi að stunda kynlíf með ungmenni.
Lögreglan handtók sjö unglinga í tengslum við málið. Sex þeirra eru yngri en 18 ára. Tveir eru enn í haldi. Samkvæmt fréttum þá ákváðu unglingarnir að „leita að barnaníðingi á netinu“ eftir að hafa lesið um svipuð mál annars staðar í Hollandi.
Jamil Roethof, verjandi eins sakborninganna, segir að hugmyndin hafi fæðst vegna þess hversu unglingunum leiddist á kórónuveirutímum.
Lögreglan segir að hinn látni hafi vitað að drengurinn, sem hann var ginntur til að koma og hitta, væri undir lögaldri. BBC segir að ekkert bendi til að maðurinn hafi nokkru sinni brotið kynferðislega gegn börnum eða unglingum.
Frá því í júlí hafa um 250 mál komið upp í Hollandi sem sjálfútnefndir „barnaníðingsveiðimenn“ tengjast að sögn lögreglunnar. Oscar Dros, lögreglufulltrúi, segir að fleiri geti látist ef þessu linnir ekki og hvetur hann almenning til að láta lögregluna um að sinna þessum málum.