Lögreglan hélt því lengi fram að Tom hefði eytt upplýsingum um tvö símtöl í síma Anne-Elisabeth daginn sem hún hvarf. Nú hefur lögreglan viðurkennt að þetta er ekki rétt. Agnes Beate Hemiø, lögreglufulltrúi, staðfesti þetta í samtali við VG.
Lögreglan hefur eytt miklum tíma í að kortleggja tímalínu atburða í tengslum við hvarf og morðið á Anne-Elisabeth. Meðal annars hefur verið stuðst við rafræn gögn, þar á meðal upplýsingar um símtöl og sms.
Yfirlit yfir símanotkun Anne-Elisabeth sýnir að Tom hringdi í hana klukkan 10.06 og 10.07 daginn örlagaríka, þann 31. október 2018. Tom hringdi úr gömlum Nokia síma en lögreglunni hefur ekki tekist að finna gögn í símanum um þessar hringingar. Af þeim sökum hélt hún því fram að hann hefði eytt upplýsingum um þau til að reyna að leyna sporum sínum.
Þegar Tom var handtekinn í lok apríl á þessu ári og úrskurðaður í gæsluvarðhald af undirrétti þá voru símagögn eitt mikilvægasta sönnunargagn lögreglunnar að sögn VG. Lögmannsréttur felldi gæsluvarðhaldsúrskurðinn síðan úr gildi, taldi ekki nægilega góðar sannanir liggja fyrir í málinu.
Nú er komið í ljós að sú tegund Nokia síma, eins og Tom notaði, eyðir sjálf skráningum um símtöl og því hafði lögreglan rangt fyrir sér allan tímann.