Samkvæmt frétt New York Times þá voru það tveir menn á mótorhjóli sem skutu feðginin til bana í Teheran. Blaðið segir að bandarísk yfirvöld hafi árum saman fylgst með al-Masri og öðrum hryðjuverkamönnum sem halda til í Íran. Al-Masri var talinn líklegur til að verða næsti leiðtogi al-Kaída hryðjuverkasamtakanna. Íranir hafa þvertekið fyrir að hryðjuverkamenn úr al-Kaída haldi til í Íran og segja ekkert hæft í að al-Masri hafi verið myrtur þar í landi. Þetta sé hreinn uppspuni í „Hollywoodstíl“ hjá bandarískum fjölmiðlum.
Blaðið segir að al-Masri hafi verið í „haldi“ Írana síðan 2003 en hafi lifað sem frjáls maður í fínu úthverfi í Teheran síðustu fimm árin. Bandarísk yfirvöld telja að honum hafi verið leyft að búa í Íran til að geta skipulagt árásir á Bandaríkin en al-Kaída og Íran eiga það sameiginlegt að vera óvinir Bandaríkjanna.