ABC News skýrir frá þessu. Moses var handtekinn 1968 þegar hann kastaði bensínsprengju á hús þegar hann tók þátt í mótmælum í kjölfar morðsins á Matrin Luther King Jr. Íbúi hússins, kona, lést síðar af völdum brunasára sem hún fékk í eldsvoðanum. Moses, sem var þá 16 ára, var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn, en hann náði að flýja árið 1971 þegar hann fékk að vera viðstaddur útför ömmu sinnar.
Síðan þá hefur hann notast við nafnið Paul Dickson. En það er ekki nóg að skipta um nafn því fingraförin breytast ekki og þegar hann var handtekinn í október vegna annars afbrots fannst fingrafar hans í fingrafaraskrá lögreglunnar og þá var leikurinn úti.
Í fréttatilkynningu frá FBI segir að með nýrri tækni í fingrafaralestri geti FBI haldið áfram að bera kennsl á afbrotamenn og þannig tryggt að þeir sem hafa eitthvað á samviskunni séu færðir fyrir dómara.