Í aldarfjórðung hafa vísindamenn fylgst með hvernig líf simpansa er þegar þeir eldast. Fylgst var með þeim frá morgni til kvölds á hverjum degi og allt sem þeir gerðu skráð. Zarin Machanda og Alexandra Ross hafa nú rannsakað vináttubönd simpansanna út frá þessum gögnum. Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu Science. Sænska ríkisútvarpið skýrir frá þessu.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að eldri simpansar tengjast vinum sínum sterkum böndum. Þeir eru ekki eins félagslyndir og þeir eru á yngri árum en þeir leggja hins vegar mikla vinnu í vináttusambönd sín. Yngri simpansar virðast líta upp til þessara nánu vináttusambanda, eins og þeir vilji sjálfir eiga í svona góðum og nánum samböndum. En þeir vita ekki hvernig þeir eiga að mynda þau.
„Frá okkar sjónarhóli er það mjög áhugavert að eldri simpansarnir eru enn vinsælir þrátt fyrir að þeir séu ekki lengur í ráðandi stöðu í hópnum. Það höfðum við ekki séð áður,“ segir Zarin Machanda prófessor í fremdardýrafræði.
Eins og hjá okkur mönnunum þá ákveða simpansar sjálfir hverja þeir umgangast. Eins og hjá okkur þá vilja simpansar gjarnan halda fast í gamla vini og eru ekki svo æstir í að eignast nýja.