Ef vel tekst til við þróun þessarar aðferðar mun það ryðja veginn fyrir uppsetningu aðstöðu á tunglinu þar sem súrefni verður unnið úr grjóti og ryki sem og vinnslu verðmætra málma. Þetta sparar mikið því það kostar gríðarlegar upphæðir að flytja þetta héðan frá jörðinni til tunglsins.
„Allt sem þú flytur frá jörðinni til tunglsins er viðbótarþyngd sem þú vilt ekki taka með. Ef þú getur búið þessi efni til á staðnum sparar þú mikinn tíma, erfiði og peninga,“ hefur The Guardian eftir Ian Mellor, framkvæmdastjóra Metalysis.
Rannsóknir á tunglgrjóti, sem hefur verið flutt til jarðarinnar, sýna að það inniheldur um 45% súrefni miðað við þyngd þess. Restin er aðallega járn, ál og silíkon. Vísindamenn hjá Metalysis og Glasgowháskóla segjast geta unnið 96% af súrefninu úr jarðvegi sem líkist jarðveginum á tunglinu.
NASA og aðrar geimferðastofnanir eru að undirbúa ferðir til tunglsins á næstu árum og er markmiðið að koma upp varanlegri bækistöð á tunglinu.