New York Times hefur eftir Linda Veress, hjá þjóðgarðinum, að strangar reglur gildi þar um hvar fólk má fara um, hvað það megi snerta og að fólk verði að halda sig á merktum stígum. Það sé ekki aðeins ólöglegt að brjóta þessar reglur, það geti einnig verið hættulegt. Vatnið í hverunum geti orðið allt að 200 gráðu heitta. „Það getur valdið alvarlegum og banvænum brunasárum,“ sagði hún.
Það var einmitt þetta heita vatn sem vinirnir nýttu sér í byrjun ágúst. Þá bárust þjóðgarðsvörðum margar tilkynningar um fólk sem væri með tæki og tól til matargerðar meðferðis og væri að elda mat. Þjóðgarðsverðir fóru á vettvang og komu að fólkinu sem var þá að sjóða tvo heila kjúklinga í hver. Einnig voru þau með pott í nágrenninu.
Fólkið var sjálft að synda í á í nágrenninu en 49 ára fjölskyldufaðir gekk beint í flasið á þjóðgarðsvörðum þegar hann kom til að líta eftir matnum.
Fólkið fékk að borða matinn en þurfti síðar að mæta fyrir dómara sem sektaði það og bannaði því að koma í þjóðgarðinn næstu tvö árin. Maturinn bragðaðist að sögn vel.