Í umfjöllun BT um málið er haft eftir Claus Juul Løland, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, að hægt sé að nota metadon við heróínfíkn. „Efnið sem við vonumst til að geta þróað verður hægt að nota á nokkurn veginn sama hátt gegn kókaínfíkn,“ sagði hann.
Vísindamennirnir fengu nýlega styrk frá Lundbecksjóðnum upp á sem svarar til um 110 milljóna íslenskra króna til að rannsaka hvort nýja efnið getur lokað fyrir vímuáhrif kókaíns.
„Eitt er að við sjáum að efnið lokar á áhrif kókaínsins. Allt annað er að skilja af hverju efnið gerir þetta,“ sagði Løland. „Efnið mun ekki gera út af við löngunina í kókaín en hugsunin er að það geti gert áhrif þess að engu þannig að fólk komist ekki í vímu. Það ætti að geta hjálpað sumum að hætta notkuninni, alveg eins og þau áhrif sem antabus hefur á áfengissjúklinga.“
Efnið er ekki væntanlegt á markað alveg á næstunni og sagðist Løland reikna með að nokkur ár séu í það.