CNN skýrir frá þessu. Fimmtudagurinn var tíundi dagurinn í röð sem fleiri en 100.000 smit greindust. Þessi mikli fjöldi smita veldur gífurlegu álagi á sjúkrahús landsins og var met sett á miðvikudaginn hvað varðar fjölda innlagna vegna COVID-19. Fyrra metið var frá því á þriðjudaginn. Á miðvikudaginn lágu 65.368 COVID-19-sjúklingar á sjúkrahúsum en á þriðjudaginn voru þeir 61.694. Þetta eru tvöfalt fleiri en fyrir mánuði síðan.
Víða um landið eru sjúkrahús komin að þolmörkum og álagið á starfsfólk er gríðarlega mikið.
Heilbrigðisráðherra Wisconsin sagði á miðvikudaginn að 90% af sjúkrahúsum ríkisins séu nú full og að útbreiðsla veirunnar sé mjög mikil. Í norðvesturhluta ríkisins eru öll sjúkrahús full.
Í Norður-Dakóta er svo mikill skortur á heilbrigðisstarfsfólki að Doug Burgum, ríkisstjóri, gaf út tilskipun í vikunni sem heimilar heilbrigðisstarfsfólki, sem er smitað af kórónuveirunni en er einkennalaust, að halda áfram að vinna á COVID-19-deildum sjúkrahúsanna svo lengi sem það notar hlífðarbúnað og er einkennalaust. Hann sagði að öll sjúkrahús í ríkinu væru full. Ekki er skylda að nota andlitsgrímur í Wisconsin.