Maynard-Ellis er sagður hafa verið haldinn nánast morðþráhyggju og aðdáun á raðmorðingjum. Fyrir dómi kom fram að hann og Leesley hafi hlutað lík Rawson niður og hent líkamshlutunum á tveimur stöðum.
Fyrir dómi kom fram að á heimili þeirra hafi fundist vinnubekkur og verkfæri, snákar og óhugnanlegar hryllingsgrímur. Fram kom að þeir hefðu hitt Rawson, sem var 42 ára, fyrir tilviljun á bar í Dudley og hafi boðið henni með heim. Saksóknari sagði að morðið hefði verið sérstaklega hrottalegt og að árum saman hafi Maynard-Ellis látið nægja að láta sig dreyma um að beita konur kynferðislegu ofbeldi og síðan myrða þær á hrottalegan hátt. Hann hafi haft sérstakan áhuga á öllu því er tengdist raðmorðingjum og sundurhlutun mannslíkama. Leesley hafi vitað af þessum áhuga hans og hugsunum og heimili þeirra hafi borið þess merki.
Kviðdómur fann þá báða seka um morðið og Maynard-Ellis var einnig fundinn sekur um að hafa nauðgað Rawson. Refsing þeirra verður ákveðin síðar.