Fyrstu hugmyndirnar um að byggja mosku í Aþenu komu fram 1990 en það tók áratugi að koma þeim í gegn því þjóðernissinnar og gríska rétttrúnaðarkirkjan voru á móti hugmyndunum, ekki bætti seinvirkt skrifræðið í landinu úr skák og síðan var erfitt að fjármagna framkvæmdina en Grikkir hafa lengi glímt við mikla fjárhagslega erfiðleika.
Fámennt var við fyrstu bænirnar á föstudaginn en takmarkaður fjöldi fékk leyfi til að vera viðstaddur vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Allir voru með andlitsgrímur og góð fjarlægð var á milli allra viðstaddra. CNN skýrir frá þessu.
„Þetta er söguleg stund fyrir múslíma í Aþenu, við höfum beðið svo lengi eftir þessari mosku,“ sagði Heider Ashir, sem situr i stjórn moskunnar. „Þökk sé guði, loksins erum við með mosku sem er opin og við getum beðið hér að vild.“
Ekki eru allir múslímar þó sáttir við útlit moskunnar en um grátt, rétthyrnt hús er að ræða án hvelfingar eða bænaturns og líkist það ekki öðrum moskum í Evrópu.
„Þetta líkist alls ekki bænahúsi, þetta er lítið, ferningur, ömurleg bygging,“ sagði Naim El Ghandour, formaður samtaka múslíma í Grikklandi.