Samkvæmt frétt The Guardian þá sagði Jeff Nankivell, aðalræðismaður Kanada í Hong Kong og Macau, þingnefnd að stjórnvöld hafi gert áætlun um hvernig þau geti aðstoðað tæplega 300.000 Kanadamenn sem búa í Hong Kong ef staðan í héraðinu versnar enn frekar.
„Við erum með nákvæma áætlun og nauðsynlegar bjargir til staðar og getum brugðist við margvíslegum aðstæðum sem kalla á skjótan brottflutning margra Kanadamanna,“
sagði hann þingnefndinni.
„Eins og staðan er núna virðast líkurnar á slíkum aðstæðum vera litlar en það er starf okkar að vera undirbúin undir verstu hugsanlegu aðstæður.“
Það þykir hafa gefið þessum áætlunum aukið vægi að kínversk stjórnvöld innleiddu stranga öryggislöggjöf í Hong Kong í sumar til að berja niður mótmæli lýðræðissinna.
Líklegt þykir að ummæli Nankivell muni auka spennuna á milli Kína og Kanada enn frekar. Kínverjar hafa verið mjög ósáttir við Kanadamenn eftir að kanadísk stjórnvöld lýstu yfir stuðningi við aðgerðasinna í Hong Kong og sagði kínverski sendiherrann í Kanada af því tilefni að „íhlutun í kínversk innanríkismál“ geti hugsanlega stefnt „heilsu og öryggi“ kanadískra ríkisborgara, sem búa á svæðinu, í hættu.