Saksóknarar skýrðu frá þessu í gær. Í tilkynningu frá þeim kemur fram að kókaínið hafi fundist þegar lögreglan leitaði í fimm gámum sem áttu að innihalda málmrusl.
Verðmæti kókaínsins, sem er mjög sterkt, er talið vera 450 milljónir evra en það svarar til um 74 milljarða íslenskra króna. Þegar búið væri að þynna efnið og selja til neytenda væri söluverðið um 900 milljónir evra eða sem svarar til 148 milljarða íslenskra króna.
Höfnin í Antwerpen er talin vera ein helsta smyglleið á kókaíni frá Suður-Ameríku til Evrópu. Ástæðan er að mikið er um áætlunarsiglingar þaðan til Suður-Ameríku.
Saksóknarar segja að gámarnir, sem kókaínið fannst í, hafi fyrst komið til hafnar í Zeebrügge en hafi síðan verið fluttir til Antwerpen. Það var falið í stálgámum sem voru faldir í enn stærri gámum sem voru sendir frá Gvæjana. Móttakandi þeirra var fyrirtæki í Hollandi. Þrír hafa verið handteknir vegna málsins, tveir í Belgíu og einn í Hollandi.
Málið tengist máli frá í september og október en þá handtók belgíska lögreglan 22 og lagði hald á um þrjár milljónir evra í reiðufé. Allir þessir 22 eru í gæsluvarðhaldi en meðal þeirra er fyrrum yfirmaður hjá belgísku lögreglunni og þrír starfandi lögreglumenn.