Ástæðan er að samkvæmt minnisblaði frá dönsku smitsjúkdómastofnuninni kemur fram að COVID-19 smit sem berst í fólk úr minkum getur stökkbreyst og hugsanlega orðið til þess að væntanleg bóluefni gegn veirunni verði óvirkt. Minnisblaðið var sent ríkisstjórninni á þriðjudaginn.
Samkvæmt fréttum danskra fjölmiðla þá hafa rannsóknir sýnt að kórónuveira, sem barst í tólf manns á Norður-Jótlandi úr minkum, hafi stökkbreyst svo mikið að hún geti ógnað virkni væntanlegra bóluefna. Stökkbreytingin olli því að fólkið myndaði ekki mótefni gegn veirunni. Það getur dregið úr virkni væntanlegra bóluefna eða í versta falli gert þau gagnslaus.
Nú þegar er búið að aflífa 1,5 milljónir minka en samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar verður öllum 15-17 milljónum minka í minkabúum landsins nú lógað.
Á fundinum sagði heilbrigðisráðherrann, Magnus Heunicke, að stökkbreytingar veirunnar ógni baráttu heimsins gegn veirunni.
„Rannsóknir hafa sýnt að stökkbreytingarnar geta haft áhrif á væntanleg bóluefni gegn COVID-19. Þetta er ógn við þróun bóluefna gegn kórónuveirunni. Þess vegna er mikilvægt að við bregðumst við hér innanlands,“
sagði hann.
Einnig verður gripið til hertra sóttvarnaaðgerða á Norður-Jótlandi, þar sem flest sýktu minkabúin eru, og verður tilkynnt um hertar aðgerðir í dag.