BBC skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn við The Imperial College London hafi komist að því að þeim sem mældust með mótefni hafi fækkað um 26% frá júní og fram í september. Þeir segja að ónæmi fólk virðist því minnka og hætta sé á að fólk smitist aftur af veirunni.
350.000 Englendingar hafa takið þátt í REACT-2 rannsókninni en í henni eru mótefni gegn veirunni mæld. Í fyrstu lotu hennar, sem stóð yfir síðustu dagana í júní og fyrstu dagana í júlí, mældust 60 af hverjum 1.000 með mótefni. Í september lotunni mældust aðeins 44 af hverjum 1.000 með mótefni. Þetta bendir til að fólki, með mótefni, hafi fækkað um rúmlega fjórðung frá því í sumar og fram á haust.
„Ónæmið minnkar hratt, nú eru aðeins þrír mánuðir síðan við tókum fyrstu sýnin og nú þegar sjáum við 26% samdrátt í mótefnum,“
er haft eftir Helen Ward, prófessor, sem vann að rannsókninni.
Samdrátturinn var meiri hjá fólki eldra en 65 ára en í yngri hópum og það sama átti við hjá þeim sem fengu engin sjúkdómseinkenni.
Fjöldi þeirra heilbrigðisstarfsmanna, sem eru með mótefni, reyndist vera frekar mikill og telja vísindamennirnir að það geti tengst því að þeir séu reglulega útsettir fyrir veirunni.
Ekki er enn ljóst hvaða áhrif það hefur á ónæmi að mótefni minnka. Aðrir hlutar ónæmiskerfisins, til dæmis T-frumur, gegna einnig mikilvægu hlutverki í vörnum líkamans. T-frumur drepa sýktar frumur og fá aðrar frumur í ónæmiskerfinu til aðstoðar.