BBC segir að aukningin á milli daga sé sú mesta síðan í apríl. Þjóðverjum hefur tekist vel upp í baráttunni við veiruna fram að þessu og hafa náð að halda smitum niðri með hörðum aðgerðum en eitthvað virðist vera farið að syrta í álinn.
„Núverandi staða veldur mér miklum áhyggjum. Við vitum ekki hvernig staðan í Þýskalandi þróast næstu vikur. Það er hugsanlegt að við munum sjá meira en 10.000 ný smit daglega. Það er hugsanlegt að veiran verði stjórnlaus,“
sagði Lothar Wieler, formaður Robert Koch stofnunarinnar, sem er þýska smitsjúkdómastofnunin, í gær.
Jens Spahn, heilbrigðisráðherra, sagði að ríkisstjórnin hafi miklar áhyggjur af þróun mála. Hann sagði að hluti af skýringunni á aukningu smita megi rekja til stórs hóps ungs fólks sem „telji sig ósigrandi“.
Rúmlega 310.000 mann hafa greinst með smit í Þýskalandi til þessa en þar búa um 83 milljónir. 9.578 hafa látist af völdum COVID-19.