Fyrir tveimur árum hurfu Jo Song Gil og eiginkona hans á dularfullan hátt í Róm. Þau höfðu þá rétt yfirgefið sendiráð Norður-Kóreu en Jo Song Gil var þá starfandi sendiherra landsins á Ítalíu. Ekkert var vitað um afdrif hans fyrr en í þessari viku þegar Ha Tae-keung, þingmaður, staðfesti orðróm um að Jo hefði látið sig hverfa og leitað á náðir nágrannanna í Suður-Kóreu. Hann setti sig þó ekki í samband við Suður-Kóreumenn fyrr en í júlí á síðasta ári.
Ha staðfesti þetta í færslu á Facebook á þriðjudaginn. Hann sagði að Jo njóti nú verndar yfirvalda. Hann er hæst setti embættismaðurinn sem hefur flúið Norður-Kóreu síðan Thae Yong-Ho, fyrrum aðstoðarsendiherra í Bretlandi, flúði til Suður-Kóreu 2016.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa ekki enn tjáð sig um flótta Jo að sögn CNN.
Jo lét sig hverfa í nóvember 2018, skömmu áður en starfstíma hans á Ítalíu átti að ljúka. Ítalska utanríkisráðuneytið sendi þá frá sér tilkynningu þar sem það sagðist hafa fengið tilkynningu frá sendiráði Norður-Kóreu um að Jo og eiginkona hans hefðu yfirgefið sendiráðið þann 10. nóvember. Fjórum dögum síðar fór dóttir þeirra til Norður-Kóreu í fylgd starfskonu sendiráðsins. Hún hafði að sögn óskað eftir að fara til afa síns og ömmu í Norður-Kóreu.