Tveir atburðir á undanförnum dögum gætu hafa gert stöðu Repúblikana enn verri. Fyrst voru það ömurlegar sjónvarpskappræður Trump og Joe Biden en meirihluta Bandaríkjamanna þótti Trump standa sig verr þar og er þá ekki verið að halda því fram að Biden hafi staðið sig vel, bara betur en Trump. Hinn atburðurinn er auðvitað veikindi Trump sem greindist með COVID-19 fyrir helgi.
Ný könnun, sem CNN gerði, sýnir að 63% Bandaríkjamanna þykir Trump hafa hegðað sér á óábyrgan hátt eftir að hann greindist með COVID-19. 33% sögðu hann hafa hegðað sér á ábyrgan hátt.
Í samanburði RealClearPolitics á niðurstöðum skoðanakannana kemur fram að Biden er að meðaltali með 8,5 prósentustiga forskot á Trump. Niðurstöður kannana sem Washington Post og Wall Street Journal gerðu á sunnudaginn sýna að Trump er 14 prósentustigum á eftir Biden á landsvísu.
FiveThirtyEight, sem er netmiðill í eigu þekktasta kosningagreinanda Bandaríkjanna, Nate Silver, sagði í gær að það sé 81% öruggt að Biden verði næsti forseti.
Samkvæmt könnunum mun Biden sigra í iðnaðarríkjunum Wisconsin, Michigan og Pennsylvania en Trump sigraði óvænt í þeim 2016. Biden nýtur einnig góðs stuðnings í hefðbundnum íhaldsríkjum í Suðurríkjunum, þar á meðal Norður-Karólínu, Texas og Arizona. Samkvæmt skoðanakönnunum er hann nú með forystu í Flórída.
Vandi Repúblikana er hugsanlega einna augljósastur í baráttunni um öldungardeildarsæti hins mjög svo íhaldssama ríkis Suður-Karólínu. Þar stefndi allt í mjög öruggan sigur Lindsey Graham, sem er tryggur stuðningsmaður Trump, en svo er ekki lengur. Skoðanakannanir sýna jafnt fylgi hans og Demókratans Jaime Harrison. Þá eru öldungardeildarsæti Repúblikana í Arizona, Iowa, Maine og Norður-Karólínu í hættu. Ef Demókratar vinna þau ná þeir væntanlega meirihluta í öldungadeildinni.
En allt eru þetta bara niðurstöður skoðanakannana og tæpar fjórar vikur eru langur tími í stjórnmálum.