Margir af nánustu samstarfsmönnum forsetans hafa greinst með veiruna en Trump greindist sjálfur með hana í síðustu viku.
„Síðustu fimm daga var ég í sjálfskipaðri sóttkví og vann ekki á skrifstofunni. Ég fór í sýnatöku daglega og var niðurstaðan neikvæð þar til í gær (mánudag, innsk. blaðamanns). Í dag (þriðjudag, innsk. blaðamanns) greindist ég með COVID-19 og er í einangrun,“
sagði Miller í tilkynningu sinni.
Trump sneri aftur í Hvíta húsið á mánudaginn eftir að hafa verið á sjúkrahúsi í þrjár nætur þar sem hann fékk meðferð við sjúkdómnum.
„Það er veiran sem snýr aftur í Hvíta húsið. Gleymið að keisarinn er ekki í neinum fötum, í kvöld er keisarinn ekki með neitt starfsfólk,“
sagði Jim Acosta, fréttamaður CNN í Hvíta húsinu, við það tækifæri.
Meðal náinna samstarfsmanna Trump, sem hafa greinst með veiruna, eru Hope Hicks, ráðgjafi, Kayleigh McEnany, talskona hans, og Bill Stepien, kosningastjóri hans. Melania Trump, eiginkona Trump, greindist einnig með veiruna í síðustu viku.
Mike Lee, Thoms Tillis og Ron Johnson, þingmenn Repúblikana, hafa einnig allir greinst með veiruna. Vitað er að 11, hið minnsta, af nánustu samstarfsmönnum Trump eru smitaðir af veirunni. The New York Times skýrir frá. Í heildina eru um 35 starfsmenn Hvíta hússins smitaðir af kórónuveirunni.