En eftir því sem þekking okkar á veirunni eykst eru sumir vísindamenn farnir að velta því upp hvort það hafi verið svo mikil þörf á að leggja þessa miklu áherslu á handþvott. Smitaðir yfirborðsfletir á borð við hurðarhúna og slökkvara eru kannski ekki svo mikið mál segja þeir. The Guardian skýrir frá þessu.
Umræðan um þetta kom upp á yfirborðið þegar Monica Gandhi, prófessor í læknisfræði við University of California í San Francisco, sagði í samtali við vísindaritið Nautilus að auðveldasta leiðin til að smitast af kórónuveirunni sé þegar litlir dropar eða úði berst frá munni eða nefi sýkts einstaklings.
„Núna vitum við að upptök smitsins eru ekki við að snerta yfirborðshluti og síðan augað. Þau eru við að vera nálægt einhverjum sem dælir veirunni úr nefi og munni án þess, yfirleitt, að vita af því,“
sagði Gandhi og hún er ekki ein um þessa skoðun. Til dæmis setur Emanuel Goldman, prófessor í örverufræði við Rutgers University í New Jersey, fram efasemdir um að veiran geti lifað á yfirborðshlutum í jafnvel allt að nokkra daga í grein sem var birt í vísindaritinu Lancet. Í greininni segist hann telja mjög litlar líkur á að fólk smitist af yfirborði hluta og að það geti aðeins gerst ef sýktur einstaklingur hnerrar eða hóstar á yfirborðið og ósýktur einstaklingur snertir það fljótlega og miðar hann þá við tvær klukkustundir.
Goldman segir að miklum fjármunum hafi verið varið í að þrífa yfirborðsfleti á sama tíma og mesta hættan sé fólgin í að fólk tali saman.
„Ef við hefðum í upphafi fjárfest í andlitsgrímum, ef við hefðum lagt alla þá áherslu, sem við lögðum á handþvott og þrif, í að tala fyrir notkun andlitsgríma í upphafi þá hefði faraldurinn næstum örugglega ekki orðið svona slæmur í Evrópu og Norður-Ameríku.“