Í umfjöllun Washington Post er bent á að mánuðum saman hafi Trump og margir samflokksmenn hans gert lítið úr hættunni, sem stafar frá kórónuveirunni, og hafi neitað að sýna aðgæslu og nota grímur, stunda félagsforðun og fleira.
„Það var örvænting áður en þetta fór í gang en nú erum við eiginlega heimski flokkurinn,“
er haft eftir Edward J. Rollins, formanni stuðningssamtaka Trump, PAC Great America.
„Frambjóðendur verða nú að verja sig daglega og svara hvort þeir séu sammála hinu eða þessu sem forsetinn gerði varðandi veiruna. Forsetinn og fólkið í kringum hann gerðu lítið úr reglunum,“
er haft eftir Michael Steel Repúblikana og fyrrum ráðgjafa John Boehner forseta fulltrúadeildarinnar.
Margir Repúblikanar hafa látið lítið fyrir sér fara eftir að tilkynnt var að Trump væri smitaður og halda sig til hlés í þeirri von að Trump snúi fljótt aftur og að kjósendur refsi þeim ekki harkalega þann 3. nóvember.