Bæði Trump og Harris héldu kosningafundi í Arizona á miðvikudaginn en skoðanakannanir sýna að Trump er með meira fylgi í ríkinu en Joe Biden, forsetaefni Demókrata.
Harris hélt „aktu-inn“ kosningafund í Phoenix þar sem fólk var hvatt til að halda sig í bílum sínum vegna kórónuveirufaraldursins. Tónlistarkonan Alicia Keys var á sviðinu með henni.
„Það eru sex dagar til kosninga. Við vitum öll hvað er undir. Við verðum að hafa forseta sem hefur að meginmarkmiði að tryggja að landsmenn hafi það gott og hafi það sem þeir þurfa. Það sem við höfum séð til Trump er það versta sem við höfum séð til nokkurrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum,“
sagði Harris sem ræddi um heimsfaraldurinn og vandræði heilbrigðiskerfisins.
„Rúmlega 225.000 hafa látist. Það er mikilvægt að átta sig á að þetta hefði ekki þurft að vera svona slæmt. Við vitum að forsetinn var strax í janúar upplýstur um hversu hættuleg veiran er. Hann og varaforsetinn vissu hversu smitandi og hættuleg hún er, en þeir leyndu því. Hvað hefðum við hin gert í janúar ef við hefðum vitað hversu hættuleg hún var? Við hefðum undirbúið okkur á annan hátt ef við hefðum vitað það sem forsetinn vissi. Þeir vissu þetta en sögðu ekkert.“
Hún gagnrýndi einnig tilraunir Trump til að gera út af við Obamacare í hæstarétti en rétturinn tekur málið fyrir fljótlega.
„Þeir reyna að svipta fólk sjúkratryggingum sínum í miðri heilbrigðiskrísu,“
sagði hún.