Bandaríska geimferðastofnunin NASA telur að ruslið sé frá japönskum gervihnetti sem brotnaði í 77 hluta á síðasta ári, þeir þeytast nú um himininn. Þetta var í þriðja sinn á árinu sem breyta þurfti stefnu geimstöðvarinnar vegna geimrusls. Frá því að hún fór á braut um jörðina 1999 hefur þurft að gera þetta 25 sinnum.
Sífellt fleiri manngerðir hlutir eru í geimnum, gervihnettir og eldflaugar sem þjóta um á ógnvænlegum hraða og geta valdið miklu tjóni. Á meðal þess sem vitað er að er á braut um jörðina eru skrúfjárn og spartlspaði. Einnig er eitthvað um málningu sem hefur flagnað af en hún getur valdið miklu tjóni ef hún rekst á eitthvað því hún þýtur um á 35.000 km/klst.
Nútímasamfélagið verður sífellt háðara ýmsu í geimnum, til dæmis gervihnöttum sem tryggja fjarskiptasamband og GPS-staðsetningarkerfinu. Nú eru um 2.000 virkir gervihnettir á braut um jörðina og um 3.000 sem ekki eru í notkun. Margir þeirra eru í undir 600 km hæð og ástandið versnar sífellt.
Elon Musk hyggst senda mörg þúsund nýja gervihnetti á loft á næstu árum en það er hluti af Space-X verkefni hans. Auk þess fjölgar þeim ríkjum sem láta til sín taka í geimnum.
Evrópska geimferðastofnunin ESA segir að hugsanlega sé ekki svo langt þangað til allt að 50.000 gervihnettir verði á braut um jörðina. Allri þessar umferð fylgir rusl. Ef allt færi á versta veg yrði fjöldaárekstur í geimnum þar sem margir hlutir myndu rekast saman og úr yrði allsherjar óreiða sem myndi í raun gera geiminn óaðgengilegan fyrir mönnuð geimför. Þannig værum við búin að loka okkur frá því að kanna geiminn með mönnuðum geimferðum.