Dómstóll í Ringerike kvað upp úrskurð í deilunni nýlega. Það hefur vakið töluverða athygli í Noregi að sumir þeirra nágranna, sem stóðu að málarekstrinum, komu að björgunarstörfum á Útey þegar Breivik gerði árásina þar eftir að hafa sprengt sprengju í Osló en þar létust 8 manns.
Samkvæmt úrskurði dómsins verða framkvæmdirnar nú stöðvaðar tímabundið eða þar til endanlega verður kveðið upp úr um hvort minnismerkið megi vera á eyjunni. Sá hluti málsins verður tekinn fyrir þann 30. nóvember næstkomandi.
Minnismerkið á að vera 77 þriggja metra háar bronssúlur, ein fyrir hvern þann sem Breivik myrti. Lengd verksins er 26 metrar.
Samkvæmt málsskjölum þá telja 17 af þeim 18 nágrönnum, sem vilja koma í veg fyrir að minnismerkið verði reist, að hætta sé á að þeir verði fyrir heilsufarstjóni af völdum minnismerkisins. Fimm þeirra telja að þeir geti hlotið varanlegt sálrænt tjón þegar grafið verður fyrir minnismerkinu og það reist. Í úrskurðinum kemur fram að margir af nágrönnunum hafi orðið fyrir miklu andlegu álagi og afleiðingum af hryðjuverkunum 2011.