Samkvæmt umfjöllun Maritime Herald þá byrjuðu fornleifafræðingar að leita að steingervingum úr dýrinu fyrir þremur árum þegar hluti af ugga fannst. Dýrið nefnist pliosaurus og var uppi fyrir um 160 milljónum ára. Þetta voru risastór dýr, á stærð við risaeðlur, sem syntu um heimshöfin og átu þau dýr sem urðu á vegi þeirra. Vísindamenn við University of Chile segja að bit dýrsins hafi verið öflugra en bit hins vel þekkta Tyrannosaurus rex. Dýrin voru allt að 13 metra löng en til samanburðar má nefna að lengsti hvíthákarl sem vitað er um var um sex metrar.
Höfuð dýranna voru um einn metri að lengd og tennurnar átta til tíu sentimetrar að lengd.
Steingervingar úr svona dýrum hafa einnig fundist hér á norðurslóðum eða á Svalbarða 2007 og 2008. Seinna dýrið var um 45 tonn.
Í fréttatilkynningu frá norska náttúrfræðisafninu sagði þá að pliosaurus hafi verið „hættulegasta dýrið sem nokkru sinni hefur synt í heimshöfunum“.