Lögreglan er þess fullviss að Tom Hagen, eiginmaður Anne-Elisabeth, tengist málinu og hafi staðið á bak við hvarf hennar og væntanlega morð. Hann var handtekinn í apríl og sat í gæsluvarðhaldi í nokkra daga en var látinn laus eftir að hæstiréttur hnekkti gæsluvarðhaldsúrskurði undirréttar. Hann þvertekur fyrir að hafa átt aðild að hvarfi eiginkonu sinnar og/eða morði og neitar nú að mæta til yfirheyrslu hjá lögreglunni.
Þetta heldur þó ekki aftur af lögreglunni sem vinnur enn að rannsókn málsins af fullum þunga. Síðustu tíðindi af málinu eru að lögreglan telur að fleiri en Tom Hagen tengist því. Dagbladet hefur þetta eftir Agnes Beate Hemiø, lögreglufulltrúa.
„Allt bendir til að fleiri, sem við höfum ekki borið kennsl á, tengist þessu máli. Það skiptir þá engu hvort um er að ræða morð eða mannrán,“
sagði hún en vildi ekki skýra frá hversu marga aðila væri um að ræða.
Málið er ein stærsta sakamálaráðgáta síðari tíma í Noregi. Enginn virðist hafa séð Anne-Elisabeth, nema þeir sem námu hana á brott og væntanlega myrtu þennan örlagaríka morgun, eftir að Tom Hagen fór til vinnu. Skömmu síðar talaði hún við son sinn í síma og er það símtal síðasta örugga lífsmarkið frá henni en því lauk klukkan 09.14.