Þetta kom fram á fréttamannafundi WHO á mánudaginn en þar var meðal annars rætt um þá staðreynd að í fjölda Evrópuríkja hafa met, hvað varðar fjölda daglegra smita, fallið hvert á fætur öðru að undanförnu.
Á Spáni og í Frakklandi hafa að undanförnu greinst rúmlega 50.000 smit á sólarhring. Þá hefur sá dapurlegi áfangi náðst að rúmlega 250.000 hafa látist af völdum veirunnar í Evrópu.
Þessi þróun veldur Mike Ryan, hjá WHO, áhyggjum.
„Núna er veiran á undan okkur í Evrópu. Ef við eigum að breyta stöðunni á nýjan leik verðum við að auka hraðann í aðgerðum okkar,“
sagði hann.
Í Evrópuríkjunum 46 eru 46% allra smita á heimsvísu og tæplega þriðjungur dauðsfalla sagði Ryan. Hann sagði jafnframt að frönsk sjúkrahús hafi staðið sig vel í að auka getu gjörgæsludeilda og að dánartíðnin vegna COVID-19 sé „lág, mjög lág“.
„En við sjáum mörg tilfelli, við sjáum sjúkdóm sem breiðist út, við sjáum mjög hátt hlutfall jákvæðra sýna og skorti á getu hvað varðar að rekja smitin. Mörg lönd standa frammi fyrir hörðum sóttvarnaaðgerðum á næstu vikum með lokunum. Það er staða sem ekkert land tekur fagnandi, það er ég viss um,“
sagði hann.