Hún er 44 ára öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins fyrir Arizona. Hún var kjörin á þing fyrir tveimur árum og rauf þá 30 ára „bölvun“ sem virtist hafa hvílt á flokknum í Maricopa County en þar fékk hún meirihluta atkvæða. Úrslitin í ríkinu ráðast einmitt oft í Maricopa County en þar er stórborgin Phoenix og þar voru 60% atkvæða í ríkinu greidd í forsetakosningunum 2016.
En hver er Kyrsten Sinema? Það höfðu kannski ekki margir heyrt um hana þar til hún bauð sig fram gegn Martha McSally, Repúblikana, í kosningunum 2018. Sinema fékk 38.000 fleiri atkvæði en McSally. Hún varð þar með fyrsti þingmaður Demókrata fyrir Arizona í öldungadeildinni í 30 ár og um leið varð hún fyrsti tvíkynhneigði þingmaður sögunnar í öldungadeildinni.
Það er þessi sigur Sinema sem hefur vakið vonir Demókrata um að nú sé staðan breytt í Arizona og að Biden takist að sigra þar.
Þrátt fyrir að vinsældir Sinema í Arizona séu miklar og að hún geti hugsanlega orðið martröð Donald Trump og sú sem tryggir Biden tilskilinn fjölda kjörmanna þá er hún ekki dæmigerður Demókrati. Hún fer nefnilega sínar eigin leiðir.
Frá því að hún settist á þing 2019 hefur hún í 51,9% tilfella greitt atkvæði með frumvörpum sem Trump hafa hugnast. Þetta er næst hæsta hlutfallið hjá þingmönnum Demókrata í öldungadeildinni. Flokksbræður hennar segja hana fara eigin leiðir.
„Ég hef ekki haft mikið af henni að segja. Hún fer sínar eigin leiðir,“
sagði Jon Tester, öldungadeildarþingmaður í Montana, í samtali við Politico.
Sinema er sama sinnis:
„Allir vita að ég er mjög óháð og að það gagnast ekki sérstaklega vel að reyna að sannfæra mig um annað.“
Skoðanakannanir sýna að mjótt er á munum á milli Trump og Biden í Arizona. Biden mælist með 48% fylgi og Trump með 46%. Ef Biden tekst að sigra í ríkinu munu vinsældir Sinema þar aukast enn frekar.